Styrkja þarf árangursmat og fjármögnun 

Skýrsla til Alþingis

07.06.2024

Auka þarf vægi og sýnileika þjónustutengdrar fjármögnunar í tengslum við fjármögnun Landspítala og tryggja að nægt fjármagn sé til staðar til að fjármagna þá umframframleiðslu sem samningar við Sjúkratryggingar kveða á um. Þá þarf að efla þekkingu hjá öllum aðilum sem koma að verkefninu, ekki síst þeim sem annast kaup og eftirlit með heilbrigðisþjónustu fyrir hönd íslenska ríkisins. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, Landspítali – fjármögnun og áætlangerð, sem kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag. 

Í skýrslunni kemur fram að framlög til fjárfestinga hafa ekki vaxið í takt við verðlag og vöxt í þjónustu eins og önnur framlög til spítalans. Algengt sé að veitt séu sérstök framlög og aukafjárveitingar vegna einskiptiskostnaðar við tækjakaup og viðhald. Þar sem endurnýjun tækjabúnaðar er eðlilegur hluti af starfsemi hátæknisjúkrahúss sé eðlilegra að gert sé ráð fyrir því við ákvörðun fjárheimilda í fjárlögum.

Það er einnig mat Ríkisendurskoðunar að nýta mætti ársskýrslu ráðherra til að greina fjárveitingar til Landspítala og hvernig þeim er ráðstafað. Þá þyrfti að gera betur grein fyrir ófyrirséðum útgjöldum sem mætt er með fjáraukalögum, ástæðum þeirra og nýtingu. 

Fjórum ábendingum er beint til heilbrigðisráðuneytis sem snúa að því að auka þurfi vægi og sýnileika þjónustutengdrar fjármögnunar og vinna að uppbyggingu þekkingar á slíkri fjármögnun. Einnig að skoða þurfi þróun á fjárfestingaframlögum til spítalans sem og að bæta framsetningu á árskýrslum ráðherra hvað varðar samhengi fjárveitinga til spítalans við þá þjónustu sem honum er falið að inna af hendi. 

Einni ábendingu er beint til Landspítala um að leggja þurfi áherslu á greiningu fyrirliggjandi rekstrargagna og hagnýta til aukins árangurs við stjórnun og gerð áætlana. Þá þurfi að leggja áherslu á að greina og bregðast við mögulegri sóun í rekstrinum.

Í ljósi umfangs reksturs Landspítala áformar Ríkisendurskoðun að fleiri úttektum verði beint að spítalanum á næstu misserum. 

Sjá nánar: Landspítali – fjármögnun og áætlanagerð
 

Mynd með frétt