Bæta þarf framkvæmd við reikningsskil ríkisaðila og gerð ríkisreiknings

Skýrsla til Alþingis

09.09.2024

Eitt af brýnustu úrbótaverkefnum sem liggja fyrir Fjársýslu ríkisins er bætt framkvæmd við reikningsskil ríkisaðila og gerð ríkisreiknings. Einnig þarf að eyða væntingabili milli ríkisaðila og Fjársýslunnar varðandi framkvæmd reikningsskila og stemma stigu við sinnuleysi stofnana gagnvart tímanlegum skilum gagna og ársreikninga. Þá  þarf að ljúka innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) og tryggja bætta fylgni við ákvæði staðlanna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Fjársýsla ríkisins - starfshættir, skipulag og árangur, sem kynnt var stjórnskipunar – og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag. 

Í skýrslunni kemur fram að styrkja þurfi áhættumat og innra eftirlit stofnunarinnar. Framkvæma þurfi heildstætt áhættumat, móta áhættustefnu sem skilgreinir eftirlitsaðgerðir og ráðstafanir sem draga úr áhættu og bæta skráningu lykilferla. Þá þurfi að innleiða innri endurskoðun í samræmi við alþjóðlega staðla og siðareglur um innri endurskoðun, eins og lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. 

Í skýrslunni eru settar fram 20 ábendingar. Sjö ábendingum er beint til fjármála- og efnahagsráðuneytis og varða fjórar þeirra endurskoðun á lagaramma Fjársýslu ríkisins, setningu reglugerða sem enn vantar varðandi framkvæmd laga um opinber fjármál, aukna festu í stefnumótun og bætt árangursmat og innleiðingu IPSAS (alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila). Í þremur ábendingum er hvatt til samvinnu við Fjársýsluna, en þær ábendingar varða gerð þjónustusamninga, fjármögnun starfsemi Fjársýslunnar, könnun á fækkun fjárlagaliða og endurskoðun verklags við gerð mánaðar- og ársfjórðungsskýrslna.

Í þeim þrettán ábendingum sem beint er til Fjársýslunnar er að finna tillögur til úrbóta og eflingar á mikilvægu starfi stofnunarinnar. Þar á meðal eru ábendingar er varða gerð þjónustustefnu og þjónustusamninga, gerð og miðlun leiðbeininga, fræðslustefnu og námskeið, auk ábendinga sem varða rekstur upplýsingakerfa.

Ríkisendurskoðun telur jákvætt að Fjársýslan hafi tekið forystu við innleiðingu sjálfvirknivæðingar verkferla sem leitt hafa til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og framkvæmd margra lykilverkefna stofnunarinnar. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut.
Sjá nánar skýrsluna: Fjársýsla ríkisins – Starfshættir, skipulag og árangur

Mynd með frétt