Fyrri eftirfylgni vegna skýrslu um Úrvinnslusjóð lokið

Skýrsla til Alþingis

07.01.2025

Úrvinnslusjóður, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Skatturinn eiga enn eftir að bregðast við hluta þeirra sex tillagna til úrbóta sem settar voru fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar árið 2022 um starfsemi sjóðsins. Tillögurnar fjölluðu um starfsemi sjóðsins, stuðning ráðuneytisins, eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds, stuðning við frekari endurvinnslu innanlands og að koma þurfi á skilvirkum leiðum til að sannreyna afdrif úrgangs.

Þetta er niðurstaða fyrri eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með skýrslunni en gert er ráð fyrir að hefðbundin eftirfylgni fari fram síðla árs 2025. Við fyrri eftirfylgni embættisins kom fram að Úrvinnslusjóður setti í kjölfar útgáfu skýrslunnar fram verkefnaáætlun í 16 liðum. Vinna að 14 þeirra hófst á árinu 2022 og var áformað að öllum þáttum hennar yrði lokið á árinu 2024.

Við fyrri eftirfylgni kom m.a. fram að starfsemi Úrvinnslusjóðs hefur verið styrkt og skilvirkni hennar aukin með ýmsu móti. Engin breyting hefur þó orðið á innheimtu úrvinnslugjalda og eftirliti þrátt fyrir ábendingar Ríkisendurskoðunar um úrbætur. Breytingar sem fylgdu setningu og innleiðingu nýrra laga um hringrásarhagkerfi nr. 103/2023 hafa haft í för með sér aukið flækjustig við álagningu gjalda og valdið töfum við afgreiðslu og tollskýrslugerð. Úrvinnslusjóður og ráðuneytið halda nú mánaðarlega samráðsfundi um málefni sjóðsins og með nýrri stjórn hans og starfsreglum hefur samstaða í störfum hennar aukist. Úrvinnslusjóður telur enn veigamikil atriði óleyst, m.a. er varðar innleiðingu laga um hringrásarhagkerfi.

Mynd með frétt