12.02.2025
Ríkisendurskoðun telur ástæðu til að stjórnvöld skoði möguleika á auknu samræmi í gagnaöflun, greiningu og birtingu upplýsinga um íslensk vinnumarkaðsmál. Þá telur embættið ríka ástæðu fyrir Vinnumálastofnun að kanna með reglubundnari og markvissari hætti afdrif þeirra einstaklinga sem fullnýtt hafa bótarétt sinn. Staða einstaklinga af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði vekur jafnframt athygli en atvinnuleysi meðal þess hóps hefur aukist stöðugt undanfarin ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri hraðúttekt Ríkisendurskoðunar, Atvinnuleysi og vinnumarkaðsúrræði, sem kynnt var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.
Í skýrslunni kemur fram að lögum samkvæmt sinna tvær ríkisstofnanir, Vinnumálastofnun og Hagstofa Íslands, gagnaöflun og greiningu á íslenskum vinnumarkaði. Athygli vekur að aðferðafræði stofnananna er ólík, sem m.a. leiðir til þess að nokkru munar á birtum tölum um framboð vinnuafls og mælt atvinnuleysi milli stofnanna. Ríkisendurskoðunar hvetur stjórnvöld til að kanna ávinning þess að samræma úrvinnslu og greiningu umræddra gagna en embættið telur líklegt að aukin samvinna framangreindra stofnana feli í sér tækifæri til hagræðingar.
Frá árinu 2018 fram á mitt ár 2024 hefur Vinnumálastofnun greitt út ríflega 209 ma. kr. í atvinnuleysisbætur. Auk þess nemur beinn bókfærður kostnaður við ýmis vinnumarkaðsúrræði um 26 ma. kr. á sama tímabili. Þá eru ótalin útgjöld vegna reksturs stofnunarinnar.
Að undanskildum árunum 2020 og 2021, þegar áhrifa Covid-19 faraldursins gætti, hefur atvinnuleysi á Íslandi mælst lágt í norrænum og evrópskum samanburði. Þrátt fyrir það vekur staða einstaklinga af erlendum uppruna athygli en atvinnuleysi meðal þess hóps mælist umtalsvert hærra en sem nemur hlutdeild hans á íslenskum vinnumarkaði. Þótt einstaklingsmiðuð vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar hafi almennt reynst vel eru vísbendingar um að leggja að þurfi sérstaka áherslu á stöðu og þarfir umrædds hóps.
Ríkisendurskoðun telur brýnt að afdrif og staða þeirra sem fullnýtt hafa bótarrétt sinn verði könnuð með reglubundnum hætti en í könnun sem gerð var árið 2014 voru vísbendingar um að 60% þeirra sem þá höfðu fullnýtt bótarétt sinn hefðu snúið aftur til vinnu þegar greiðslum atvinnuleysisbóta sleppti.
Ríkisendurskoðun beindi þremur ábendingum til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, forsætisráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands:
1. Kanna þarf ávinning samræmdrar úrvinnslu mælinga á vinnumarkaði
2. Kanna skal með reglubundnum hætti afdrif þeirra sem fullnýtt hafa bótarétt sinn
3. Efla þarf úrræði sem styðja sérstaklega við erlenda ríkisborgara
Sjá skýrslu um atvinnuleysi og vinnumarkaðsúrræði
Skýrslan var unnin samkvæmt nýju verklagi Ríkisendurskoðunar um hraðúttektir. Hraðúttektir eru upplýsandi og staðreyndamiðaðar skýrslur sem gefa þingi, stjórnsýslu, almenningi, fjölmiðlum og öðrum greinargóðar upplýsingar um tiltekin mál eða málefni sem eiga erindi við samfélagslega umræðu.