Atvinnuleysi og vinnumarkaðsúrræði (hraðúttekt)

12.02.2025

Í maí 2024 ákvað Ríkisendurskoðun, á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga að hefja að eigin frumkvæði stjórnsýsluúttekt á stöðu atvinnuleysis á Íslandi á tilteknu tímabili. 

Atvinnuleysi og vinnumarkaðsúrræði (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Lögum samkvæmt sinna tvær ríkisstofnanir, Vinnumálastofnun og Hagstofa Íslands, gagnaöflun og greiningu á íslenskum vinnumarkaði, sem og miðlun slíkra upplýsinga til stjórnvalda, hagaðila og almennings. Stofnanirnar byggja mælingar sínar á ólíkum forsendum sem hefur þau áhrif að áætlaður fjöldi innlends vinnuafls er ólíkur milli stofnananna og nokkru munar á reiknuðu atvinnuleysi. Ríkisendurskoðun telur ástæðu til að stofnanirnar og ráðuneyti þeirra kanni ávinning þess að samræma úrvinnslu og birtingu umræddra mælinga og bendir á að tækifæri til hagræðingar felist í aukinni samvinnu stofnananna.

Frá árinu 2018 og fram á mitt ár 2024 hefur Vinnumálastofnun greitt út rúmlega 209 ma. kr. í atvinnuleysisbætur. Þá er ótalinn kostnaður við rekstur stofnunarinnar og ýmis önnur útgjöld tengd framkvæmd vinnumarkaðsúrræða en beinn bókfærður kostnaður vegna þeirra nemur um 25,9 ma. kr. Með hliðsjón af því félagslega mikil-vægi sem felst í atvinnuþátttöku eru brýnir hagsmunir fyrir stjórnvöld að takast á við áskoranir sem fylgja ýmsum þáttum vinnumarkaðsmála. 

Ef frá eru talin árin 2020 og 2021 hefur atvinnuleysi á Íslandi á framangreindu tímabili mælst á bilinu 3,1– 4,6%. Í norrænum og evrópskum samanburði telst það lítið. Þegar áhrifa Covid-19 faraldursins gætti framangreind ár jókst atvinnuleysi hins vegar mikið og mældist 6,4% árið 2020 og 6% árið á eftir. 

Þótt atvinnuleysi á Íslandi hafi undanfarin ár mælst lítið í alþjóðlegum samanburði er staða atvinnuleitenda ólík eftir bakgrunni. Óverulegs munar gætir milli kynja og erfitt er að draga miklar ályktanir út frá aldri eða menntun. Hins vegar vekur staða erlendra ríkisborgara athygli. Sá hópur nemur um fimmtungi alls vinnuafls í landinu og mælist atvinnuleysi meðal hans til skemmri og lengri tíma tæplega þrefalt hærra en hlutdeild á íslenskum vinnumarkaði. Langtímaatvinnuleysi erlendra ríkisborgara hefur jafnframt aukist verulega frá árinu 2021. Þótt atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara sé með hæsta móti hér á landi, miðað við Vesturlönd, er rík ástæða fyrir stjórnvöld að styðja betur við þennan hóp. 

Undanfarin ár hefur Vinnumálastofnun beitt ýmsum vinnumarkaðsúrræðum til að þjónusta atvinnuleitendur en fjöldi, tegundir og áhersla á beitingu úræðanna hefur almennt tekið mið af árferði hverju sinni. Einstaklingsmiðuð úrræði hafa sýnt ágætan árangur en vísbendingar eru þó um að leggja þurfi meiri áherslu á stöðu og þarfir atvinnuleitenda af erlendum uppruna, m.a. með hliðsjón af takmarkaðri íslensku-kunnáttu þessa hóps.

Afdrif og staða þeirra sem fullnýtt hafa bótarétt sinn hafa ekki verið könnuð með reglubundnum hætti hér á landi. Í könnun sem unnin var fyrir Vinnumálastofnun árið 2014 var að finna vísbendingar um að tæplega 60% þeirra sem fullnýttu bótarétt sinn hafi snúið aftur í launað starf, a.m.k. að hluta. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að afdrif umræddra einstaklinga séu könnuð með reglubundnum hætti með hliðsjón af beitingu og umfangi vinnumarkaðsúrræða og ákvörðunar um lengd bótatímabils. 

Lykiltölur

Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði 2018-2024
Hlutfallslegt atvinnleysi 2018-2023