17.02.2025
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hinn 17. febrúar 2025, kynnti Ríkisendurskoðun eftirfylgni sína með þeim niðurstöðum og tillögum til úrbóta sem settar voru fram í skýrslunni Þjónusta við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018 - Innleiðing og framkvæmd sveitarfélaga (október 2021). Sú úttekt var upphaflega unnin eftir beiðni félagsmálaráðuneytis (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti). Ólíkt hefðbundnum stjórnsýsluúttektum, en í samræmi við beiðni ráðuneytisins, tók úttekt Ríkisendurskoðunar m.a. til framkvæmdar sveitarfélaga á tilteknum þáttum löggjafarinnar. Leitað var til Sambands Íslenskra sveitarfélaga um upplýsingar varðandi þann þátt.
Í skýrslunni setti Ríkisendurskoðun fram fjórar tillögur um nauðsynlegar úrbætur á ábyrgðarsviði félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í fyrsta lagi yrði að bæta leiðbeiningar og kynningarferli þegar gerðar væru viðlíka breytingar á gildandi lögum og reglugerðum. Í öðru lagi yrði að skýra fjármögnun NPA samninga og tryggja gagnsæja og skilvirka afgreiðslu þeirra. Í þriðja lagi yrði að uppfæra reglur og kynningarefni gagnvart notendum þjónustunnar. Að lokum var lagt til að ytra og innra eftirlit yrði styrkt.
Þótt að einhverju leyti hafi verið komið til móts við þær tillögur Ríkisendurskoðunar eru margir þeir annmarkar sem bent var á enn fyrir hendi. Því er brýnt að ráðuneyti félags- og vinnumarkaðsmála, í samvinnu við sveitarfélög landsins, haldi áfram vinnu við að koma til leiðar nauðsynlegum úrbótum hvað snýr að öllum tillögum Ríkisendurskoðunar.
Tillaga til úrbóta | Ábyrgðaraðili |
Bæta þarf leiðbeiningar- og kynningarferli | Félags- og vinnumálaráðuneyti og Samband Íslenskra sveitarfélaga |
Skýra þarf fjármögnun NPA samninga | |
Uppfæra þarf reglur og kynningarefi fyrir notendur þjónustunnar | |
Styrkja þarf ytra og innra eftirlit |