12.03.2025
Hafrannsóknastofnun vanrækti árin 2019−2023 lögbundna skyldu sína um að tryggja jafnræði og gagnsæi í innkaupum, sem og hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Stofnunin býr ekki yfir fullnægjandi upplýsingum um hvernig innkaupum hennar var háttað og því er ómögulegt að meta hversu oft framkvæmd þeirra var á skjön við ákvæði laga um opinber innkaup. Aftur á móti er ljóst að innkaupin voru ekki ávallt í samræmi við gildandi lög og reglur um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar Hafrannsóknastofnun: Mannauður, innkaup og upplýsingatækni sem kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að Hafrannsóknastofnun býr ekki yfir upplýsingum um hversu oft hún framkvæmdi útboð við innkaup sín á umræddu tímabili eða í hve mörgum tilfellum einstök innkaup voru yfir viðmiðunarfjárhæðum laga um opinber innkaup og voru því útboðsskyld.
Hafrannsóknastofnun kannaði ekki hvort að þjónustusamningur um útvistun á kerfisstjórn og notendaþjónustu stofnunarinnar væri útboðsskyldur og leitaði ekki annarra tilboða. Stofnuninni mátti þó vera ljóst að heildarvirði samningsins væri yfir viðmiðunarfjárhæðum. Stofnunin réðst hvorki í ítarlega þarfa- né kostnaðargreiningu áður en samningurinn var undirritaður í mars 2023. Stofnunin hefur sagt að kostnaður vegna breytinganna hafi reynst meiri en vonir stóðu til og að samningsstjórnun af hennar hálfu hafi verið ábótavant.
Skipurit og samsetning framkvæmdastjórnar Hafrannsóknastofnunar hafa tekið tíðum breytingum og óánægja með starfsskilyrði komið upp sem m.a. má rekja til starfsaðstæðna í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Hafnarfirði. Kannanir hafa sýnt að vinnustaðamenning Hafrannsóknastofnunar stendur höllum fæti og hefur stofnunin leitað aðstoðar fagaðila til að vinna bragarbót á því.
Ríkisendurskoðun beinir eftirfarandi fimm ábendingum til Hafrannsóknastofnunar:
Ríkisendurskoðun beinir eftirfarandi ábendingu til matvælaráðuneytis:
Sjá nánar: Hafrannsóknastofnun: Mannauður, innkaup og upplýsingatækni