02.04.2025
Kostnaður vegna innkaupa ríkisaðila á upplýsingatækni er mikill og hefur verið metinn á bilinu 12–15 ma. kr. árlega. Stefna, stjórnun og rekstur upplýsingatæknimála ríkisaðila hafa verið dreifstýrð og ábyrgð legið hjá einstökum stofnunum. Samhæfing hefur því verið lítil sem engin. Eitt af einkennum íslenska stofnanakerfisins er fjöldi smærri stofnana og oft á tíðum takmörkuð þekking og reynsla hvað upplýsingatækni varðar. Stigin hafa verið skref í þá átt að minnka vægi dreifstýringar en frá því að verkefnastofa um Stafrænt Ísland var sett á laggirnar árið 2018 hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar til að samræma nálgun, einkum um stafræna þjónustu. Eiginleg ábyrgð stofnana á upplýsingatæknimálum hefur þó í eðli sínu ekki breyst.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri hraðúttekt Ríkisendurskoðunar, Innkaup ríkisaðila á upplýsingatækni, sem kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.
Ríkisendurskoðun telur að efla þurfi stýringu á upplýsingatæknimálum ríkisaðila, bæði hvað varðar innkaup og tæknileg viðmið. Gera þarf ráðstafanir til að bæta undirbúning ríkisaðila við innkaup á hugbúnaði og líta til annarra möguleika um þróun, s.s. sameiningu á einstaka upplýsingatæknieiningum ríkisins eða auknum samrekstri í því skyni að auka skilvirkni og hagkvæmni.
Í skýrslunni kemur fram að fáir birgjar séu með langstærsta hluta af viðskiptum í upplýsingatækni. Af þeim ríkisaðilum sem kaupa hvað mest af þjónustu í sérsmíðuðum hugbúnaði eru þrír birgjar með nær öll viðskiptin, þar af einn með um 60%. Enn fremur kemur fram í skýrslunni að heildstætt yfirlit um sérsmíðaðan hugbúnað ríkisaðila og kostnað vegna hans sé ekki til. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að bæta úr því.
Ríkisendurskoðun beinir eftirfarandi þremur ábendingum til fjármála- og efnahagsráðuneytis:
Sjá nánar: Innkaup ríkisaðila á upplýsingatækni (hraðúttekt)