Ópíóíðavandi - staða, stefna og úrræði (hraðúttekt)

20.03.2024

Í byrjun árs 2023 bar mikið á fréttum þess efnis að vandi tengdur misnotkun ópíóíða hefði aukist. Upplýsingar voru misvísandi og ekki ljóst hvaða aðilar hefðu bestu yfirsýn um vandann. Ríkisendurskoðun ákvað því að eigin frumkvæði að hefja hraðúttekt á málefninu í september 2023. Markmiðið var að safna upplýsingum frá helstu aðilum í þeim tilgangi að varpa ljósi á raunverulega stöðu og umfang vandans, hvernig brugðist hefur verið við honum og hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem ánetjast ópíóíðum. Ákveðið var að afmarka úttektina við tímabilið 2017–2023. 
 

Ópíóíðavandi - staða, stefna og úrræði (hraðúttekt) (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 Ábendingar til heilbrigðisráðuneytis

  1. Setja þarf stefnu og taka skýra forystu
    Heilbrigðisráðuneyti þarf að taka skýra faglega forystu í málefnum fíknivanda og setja heildstæða stefnu í áfengis- og vímuefnamálum hið fyrsta. Stefnunni þarf að fylgja eftir með aðgerðaáætlun, tímasettum markmiðum og skilgreindum ábyrgðaraðilum. 
     
  2. Efla þarf upplýsingaöflun og yfirsýn
    Þörf er á að efla og samræma gagna- og upplýsingaöflun um þróun ópíóíðavanda og fíknivanda almennt. Mikilvægt er að stjórnvöld öðlist betri yfirsýn um málaflokkinn og styrki þannig grundvöll ákvarðanatöku og stefnumótunar. 
     
  3. Bæta þarf aðgengi að meðferðum og þjónustu
    Kanna þarf með heildstæðum hætti þörf á þjónustu og meðferðarúrræðum og haga framboði í samræmi við þá greiningu. Huga þarf sérstaklega að hindrunum í aðgengi að þjónustunni. Mikilvægt er að mæta þörfum þeirra sem falla ekki inn í skilgreinda þjónustu hjá meðferðar- og heilbrigðisstofnunum. Í því sambandi þarf m.a. að forgangsraða vinnu við þróun flýtimóttöku.  
     
  4. Formfesta þarf kröfur og viðmið um viðhalds-meðferð við ópíóíðafíkn
    Móta verður faglega umgjörð um viðhaldsmeðferð og tryggja að hún uppfylli kröfur um faglega þekkingu. Þetta mætti t.d. gera með setningu reglugerðar. Skýr umgjörð ætti jafnframt að draga úr ágreiningi um skilgreiningu og túlkun samnings um slíkar meðferðir. 

Ekkert ráðuneyti hefur tekið skýra forystu í málum er varða ópíóíðafíkn eða fíknivanda almennt. Enginn viðmælenda Ríkisendurskoðunar gat bent á hvar forysta í málaflokknum lægi. Ríkisendurskoðun bendir á að skýrt er að heilbrigðisráðuneyti fer með málefni er varða ávana- og fíkniefni og áfengis- og vímuvarnir. Þjónusta á meðferðarstofnunum er einnig á ábyrgðarsviði ráðuneytisins. Ópíóíðavandi er því ótvírætt fyrst og fremst viðfangsefni heilbrigðisráðuneytis. 

Ekki er í gildi stefna í áfengis- og vímuvörnum en heilbrigðisráðuneyti segir stefnu sem sett var fyrir tímabilið 2013‒2020 leiðarljós stjórnvalda í málaflokknum. Sú stefna var þó ekki útfærð nánar með aðgerðaáætlun sem hefði átt að tryggja framkvæmd hennar. Ríkisendurskoðun fær ekki séð að útrunnin stefna sem ekki var fylgt eftir með aðgerðum eða tímasettum markmiðum geti talist leiðarljós í þessum málum. Raunin er að stefnuleysi ríkir í málaflokknum. 

Heilbrigðisráðuneyti hefur ekki metið fjárþörf vegna ópíóíðavanda auk þess sem þörf fyrir heilbrigðis- og meðferðarþjónustu vegna vímuefnavanda hefur ekki verið kortlögð með heildstæðum hætti. Framboð meðferðar byggir ekki á opinberri stefnumótun heldur hefur það að mestu mótast af félaga- og grasrótarsamtökum og heilbrigðisstofnunum á þeirra vegum. Þannig hvílir meginþungi ábyrgðar á meðferðarþjónustu á Íslandi hjá SÁÁ. 

Ákveðnir hópar fá ekki þjónustu við hæfi í þeim úrræðum sem til staðar eru á meðferðar- og heilbrigðisstofnunum. Þá eru til staðar hindranir að með-ferðarþjónustu sem geta komið í veg fyrir að einstaklingar geti fengið tímanlega aðstoð við aðkallandi fíknivanda. Auk skýrrar stefnu og þarfagreiningar vantar skýrari ramma utan um viðhaldsmeðferð og skaðaminnkandi úrræði, t.d. með setningu reglugerðar þar um. 

Enginn aðili hefur fulla yfirsýn um þann fjölda sem glímir við ópíóíðavanda. Söfnun gagna og upplýsinga sem varpað geta ljósi á umfang vandans er á forræði margra stofnana og þjónustuveitenda. Þessir aðilar hafa misjafnar forsendur og aðbúnað til gagnasöfnunar og greiningar og því gætir misræmis í upplýsingum. Heilbrigðisráðuneyti hefur ekki fullnægjandi upplýsingar um stöðuna.

Ítrekað hefur verið kallað eftir heildstæðri endurskoðun á gildandi samningum SÁÁ við SÍ. Undirbúningur að nýjum samningi hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Fjárframlög til SÁÁ grundvallast á samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Samningur um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn var síðast gerður árið 2014 um þjónustu við allt að 90 sjúklinga á hverjum tíma. Um árabil hefur verið ágreiningur um túlkun hans milli SÁÁ og SÍ og skilgreiningar í samningi um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Ljóst er að mun fleiri fá lyfjameðferð en samningurinn gerir ráð fyrir.

Bráðaþjónusta fyrir fíknisjúka er af skornum skammti. SÁÁ er ekki með samning um að veita bráðaþjónustu og bráðadeild Landspítala er ekki alltaf heppilegur vettvangur fyrir þjónustu við þennan hóp. Heilbrigðisráðuneyti fól SÍ um mitt ár 2023 að kostnaðarmeta framkvæmd flýtimóttöku. SÍ hefur sett undirbúning flýtimóttöku í samhengi við heildarendurskoðun samninga SÁÁ við SÍ. 
 

Lykiltölur

Andlát vegna ópíóíðaeitrana samkvæmt dánarmeinaskrá
Andlát af völdum ópíóíða 2017-2023
Algengustu lyfin sem notuð eru vegna ópíóíðafíknar
Fjöldi innlagna á Landspítala vegna ópíóíðamisnotkunar
Fjöldi einstaklinga sem greindust með ópíóíðafíkn í innlögn á Vogi
Þróun greininga á ópíóíðafíkn og neyslu ópíóíða meðal sjúklinga á Vogi
Neyslumynstur ópíóíða meðal einstaklinga með ópíóíðafíkn á sjúkrahúsinu Vogi
Hlutur ópíóíðaeitrana í öllum lyfjatengdum andlátum