Endurskoðun ríkisreiknings 2023

24.02.2025

Ríkisreikningur vegna ársins 2023 var gefinn út 15. júlí 2024 undirritaður af fjármála- og efnahagsráðherra og fjársýslustjóra. Áritun ríkisendurskoðanda er án fyrirvara en með ábendingu um stöðu innleiðingar alþjóðlegra reikningsskila fyrir opinbera aðila (IPSAS).

Endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2023 var kynnt fjárlaganefnd Alþingis þann 19. febrúar 2025.

Endurskoðun ríkisreiknings 2023 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Vakin er athygli á eftirfarandi ábendingum og athugasemdum til fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins en smávægilegum ábendingum var komið beint á framfæri við stjórnendur einstakra ríkisaðila þegar endurskoðunarvinna fór fram.

  1. Innra eftirlit og innri endurskoðun
    Skortur á reglugerðum, reglum og leiðbeiningum skapar aukna möguleika til sviksemi og sniðgöngu og ber vott um veikleika í fjármálastjórnun hjá ríkinu. Ríkisendurskoðun áréttar enn mikilvægi þess að innri endurskoðun sé sett á laggirnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Sjá nánar í kafla 3.
     
  2. Gerð reikningsskila - samstæðureikningur
    Undirbúningur Fjársýslunnar og fjármála- og efnahagsráðuneytis við gerð samstæðureiknings ríkissjóðs hefði þurft að vera betri, einkum verklag. Þá þurfa uppgjörsgögn að liggja fyrir tímanlega. Samanburðarfjárhæðir voru ekki unnar eins og til stóð og lágu fyrir mjög seint í uppgjörsferlinu. Sjá nánar kafla 4.2.
     
  3. Gerð reikningsskila - uppgjörskerfi
    Ríkisendurskoðun áréttar sérstaklega ábendingar úr fyrri endurskoðunarskýrslum og vísar einnig í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfshætti, skipulag og árangur Fjársýslu ríkisins um innleiðingu á sérstöku uppgjörskerfi fyrir gerð ríkisreiknings. Sjá nánar kafla 4.2.
     
  4. Gerð reikningsskila - sérfræðiaðstoð
    Ríkisendurskoðun leggur til að fjármála- og efnahagsráðuneyti og Fjársýsla ríkisins leiti sér utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar til að bæta verklag, upplýsingagjöf og fylgni við staðla. Sjá nánar kafla 4.2.
     
  5. Flokkun ríkisaðila og reikningsskilareglur
    Mikilvægt er að ljúka vinnu við flokkun allra ríkisaðila þannig að ekki sé óvissa um flokkun á starfsemi þeirra í ríkisreikningi og hagskýrsluuppgjörum ríkisins. Einnig er nauðsynlegt að flokkun ríkisaðila liggi fyrir þegar ákveðið er að aðgreina starfsemi þeirra í sérstökum félögum. Sjá nánar kafla 4.3.
     
  6. Óvanalegir atburðir
    Ríkisendurskoðun mælir með að útgjöld ríkissjóðs vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og óvanalegra viðlíkra atburða fari í gegnum eitt fjárlaganúmer sem er sérstaklega sett á stofn vegna slíkra atburða. Sjá nánar kafla 4.4.
     
  7. Ríkisreikningur og framsetning hans
    Til að gæta samræmis við IPSAS 22 staðalinn um fjárhagsupplýsingar hins opinbera gæfi það betri mynd af starfsemi hins opinbera að gera ársreikning fyrir A- hluta í heild fremur en einungis A1– hluta. A1– hluta ársreikningur getur gefið samanburð við fjárlög en slíkur samanburður samræmist ekki markmiði við gerð ríkisreiknings samkvæmt IPSAS. Sjá nánar kafla 4.5.
     
  8. Viðskipti milli ríkisaðila
    Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að verklag sé skýrara og öll gögn um jöfnunarfærslur milli ríkisaðila liggi fyrir við uppgjörsvinnuna. Forsendur fyrir því hvaða viðskiptum og stöðum er jafnað út eru óljósar en nauðsynlegt er að þær liggi fyrir með skýrum hætti. Sjá nánar kafla 4.7.
     
  9. Varanlegir rekstrarfjármunir - bókhaldsgögn
    Ríkisendurskoðun bendir á nauðsyn þess og mikilvægi að bókhaldsgögn séu aðgengileg og tímanlega tilbúin, ekki síst þegar um verulegar og óvanalegar færslur er að ræða. Sjá nánar kafla 4.8.
     
  10. Varanlegir rekstrarfjármunir - fasteignir
    Ríkisendurskoðun bendir á, líkt og í skýrslu vegna ríkisreiknings 2022, að enn vantar upp á að umsýsla með fasteignir í eigu íslenska ríkisins sé samræmd milli aðila. Ekki er búið að formfesta umsýslu með ýmsar eignir, þ.m.t. fasteignir Landspítala, jarðir í ríkiseigu, eignir erlendis og eignir æðstu stjórnar og stjórnsýslu. Sjá nánar kafla 4.8.
     
  11. Varanlegir rekstrarfjármunir - samgöngumannvirki
    Óviðunandi er að undirkerfi Vegagerðarinnar um samgöngu-mannvirki stemmi ekki við fjárhagsbókhald hennar. Sjá nánar kafla 4.8.
     
  12. Varanlegir rekstrarfjármunir – utanumhald
    Gæta þarf að því að haldið sé utan um alla varanlega rekstrarfjármuni í fyrningarskýrslum, að um þá vinnu sé ábyrgðaraðili og annar sem er samþykktaraðili. Einnig þarf að tryggja að bókhaldsgögn um eignfærslur á varanlegum rekstrarfjármunum séu aðgengileg í bókhaldskerfinu. Eignakerfið (FA) þarf að rýna reglulega þannig að þar séu ekki skráðar eignir sem eru orðnar úreltar eða fullafskrifaðar. Ríkisendurskoðun hvetur Fjársýslu ríkisins til að setja fram reglur um eignfærslur smærri rekstrarfjármuna. Sjá nánar kafla 4.8.
     
  13. Leigueignir og leiguskuldir
    Í samstæðu sést að leigueignir og leiguskuldir eru innifaldar í öðrum eigna- og skuldaliðum og ekki er færð jöfnunarfærsla til að leiðrétta fyrir stöðunum. Að þessu leyti er ósamræmi við ákvæði IPSAS. Sjá nánar kafla 4.9.
     
  14. Óefnislegar eignir
    Skýring 25 í ríkisreikningi um óefnislegar eignir er ekki nægjanlega skýr varðandi tegund óefnislegra eigna en verulegur hluti eignfærðs undirbúningskostnaðar hjá Landsvirkjun er ranglega flokkaður sem hugbúnaður og hugbúnaðarlausnir í skýringunni. Sjá nánar kafla 4.10.
     
  15. Lífeyrisskuldbindingar – greiðslur vegna lífeyrisréttinda
    Ríkisendurskoðun bendir á að ríkið hefur ekki greitt til lífeyrissjóðanna eða inn á skuldbindinguna fjárhæð samsvarandi áunnum réttindum á hverjum tíma og hefur á umliðnum árum ekki lagt sjóðunum til nægjanlegt fjármagn til að halda áunnum réttindum í horfinu eða greiða þau niður. Ekki er upplýst um áætlaða næsta árs greiðslu inn á skuldbindinguna líkt og kveðið er á um í IPSAS. Sjá nánar í kafla 4.11.
     
  16. Lífeyrisskuldbindingar – upplýsingar
    Upplýsingum vegna lífeyrisaukasjóðs er ábótavant í ríkisreikningi. Ríkissjóður gaf út skuldabréf sem er haldið aðgreindum í sérstökum varúðarsjóði utan bókhalds sem heimilt er að innleysa þegar lífeyrissjóðurinn er neikvæður að ákveðnu marki. Viðeigandi er að geta þessa í skýringu um lífeyrisskuldbindingar. Sjá nánar í kafla 4.11.
     
  17. Skammtímakröfur
    Fjársýsla ríkisins þarf að taka liði undir skammtímakröfum fastari tökum í reikningshaldi og í reikningsskilagerð meðal annars hvað varðar flokkun, flokkunarfærslur og upplýsingagjöf. Sjá nánar í kafla 4.12.
     
  18. Laun og launatengd gjöld
    Nauðsynlegt er að Fjársýsla ríkisins geri heildarafstemmingu á milli launakerfis og fjárhagsbókhalds í tengslum við gerð ríkisreiknings og ábyrgðarskil einstakra sviða stofnunarinnar séu skýr. Sjá nánar í kafla 4.13.
     
  19. Fjáreignir og fjárskuldir
    Ríkisendurskoðun bendir á að ríkissjóði beri að setja fram ítarlegar skýringar um fjáreignir og fjárskuldir í ríkisreikningi. Sjá nánar í kafla 4.14.
     
  20. Óvissar eignir og óvissar skuldir
    Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við að hjá ríkinu er ekki heildstætt yfirlit um reiknaðar skuldbindingar, óvissar skuldir og óvissar eignir. Sjá nánar í kafla 4.15.
     
  21. Skuldbindingar vegna velferðarþjónustu
    Ríkisendurskoðun bendir á að upplýsingagjöf í ríkisreikningi er rýr þegar kemur að mati á áhrifum af innleiðingu IPSAS 42 um velferðarþjónustu og félagslega aðstoð, ekki kemur fram hvaða hlutar staðalsins hafa verið innleiddir eða hvaða áhrif og breytingar full innleiðing staðalsins hefur í för með sér. Sjá nánar í kafla 4.16.
     
  22. Auðlindir
    Ríkisendurskoðun bendir á að fyrir liggja drög að alþjóðlegum reikningsskilastaðli um auðlindir og er mikilvægt að undirbúa innleiðingu hans með skipulögðum og formlegum hætti. Sjá nánar í kafla 4.17.
     
  23. Ríkisaðilar í A- hluta
    Samkvæmt 54. gr. laga um opinber fjármál skal hver ráðherra sjá til þess að ríkisaðilar sem undir hann heyra uppfylli ákvæði laganna um skilafresti ársreikninga. Fjármála- og efnahagsráðuneyti þarf að tryggja að ekki sé misbrestur á skilum og yfirfara hvað hamlar að skilað sé innan lögbundins skiladags. Sjá nánar í kafla 4.18.
     
  24. Ríkisaðilar aðrir en í A1- hluta ríkissjóðs
    Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við að ÍL-sjóður sé gerður upp samkvæmt lögum um ársreikninga en hann ætti að vera gerður upp í samræmi IPSAS samkvæmt lögum um opinber fjármál.
    Ríkisendurskoðun mælist til þess að skýringar í ársreikningi Byggðastofnunar fjalli um magn og verðmæti þess kvóta sem stofnunin úthlutar hverju sinni.
    Ríkisendurskoðun telur óvissu ríkja um hvernig meðhöndla eigi niðurfærslu námslána Menntasjóðs námsmanna í reikningsskilum þar sem hugsanlega beri að líta á hluta hennar sem styrk frekar en lánveitingu í samræmi við ákvæði IPSAS.
    Vegna viðskipta tengdum Samgöngusáttmála þarf að haga bókhaldi ríkisins með þeim hætti að það endurspegli þá samninga sem gerðir hafa verið milli aðila hans.
    Ríkisendurskoðun vill benda á að þegar háar fjárhæðir eru á bankareikningum aðila utan A1- hluta er eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðuneytið setji reglur um ráðstöfun handbærs fjár umfram tiltekinna viðmiðunarmarka hjá þeim aðilum.
    Sjá nánar í kafla 4.19.
     
  25. Fylgni við reikningsskilastaðla
    Formfesta þarf verklag um yfirferð á nýjum stöðlum og framsetningu og mat áhrifum þeirra á ríkisreikninga. Sjá nánar í kafla 5.