06.03.2023
Í skýrslunni Vegagerðin - Stjórnun, reikningshald og eftirlit með öryggi og gæðum framkvæmda (2023) gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir stjórnsýsluúttekt embættisins á tilteknum þáttum sem lúta að starfsemi Vegagerðarinnar. Í skýrslunni eru settar fram 10 ábendingar um úrbætur á verksviði Vegagerðarinnar, innviðaráðuneytis, og Samgöngustofu. Ábendingar Ríkisendurskoðunar snúa m.a. að eftirliti með gæðum og öryggi vegaframkvæmda, vægi innri endurskoðunar í starfsemi Vegagerðarinnar og eftirfylgni með árangri stofnunarinnar innan ramma laga um opinber fjármál.
Skýrslan er unnin á grundvelli beiðni Alþingis frá því í janúar 2021, sbr. þskj. 705 ‒ 426. mál á 151. löggjafarþingi. Auk stjórnsýsluendurskoðunar á tilteknum þáttum í starfsemi stofnunarinnar óskaði Alþingi eftir fjárhagsendurskoðun á reikningshaldi og rekstri Vegagerðarinnar. Ríkisendurskoðun hefur því jafnframt tekið saman og skilað Alþingi skýrslu um niðurstöður fjárhagsendurskoðunar fyrir árið 2020, sbr. Vegagerðin. Niðurstöður fjárhagsendurskoðunar fyrir árið 2020 (2023). Í henni eru settar fram 40 tillögur til úrbóta sem stjórnendur Vegagerðarinnar hafa tekið til skoðunar og brugðist við að hluta.
Ríkisendurskoðun vekur athygli á að frá gildistöku laga nr. 123/2015 um opinber fjármál hefur Vegagerðin ekki getað staðið skil á ársreikningum og eignaskrám innan þess tímaramma sem lögin tilgreina. Þá hafa stjórnendur Vegagerðarinnar undirritað tvo ólíka ársreikninga fyrir árin 2018‒20. Alvarlegir veikleikar hafa verið fyrir hendi varðandi fjárhagslega yfirsýn stofnunarinnar og getu hennar til að haga reikningshaldi í samræmi við góðar starfsvenjur og tryggja nauðsynlega yfirsýn um fjárhag og rekstur. Við framkvæmd þessara úttektar skorti töluvert á að áreiðanleiki fjárhagslegra upplýsinga væri með þeim hætti að hægt væri að svara með nægjanlegri vissu hvort hagkvæmni og skilvirkni væri gætt í nýtingu þeirra fjármuna sem Vegagerðin fær úthlutað.
Sjá nánar