Eftirfylgni stjórnsýsluúttekta

Skýrsla til Alþingis

14.02.2025

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hinn 12. febrúar 2025, kynnti Ríkisendurskoðun niðurstöðu eftirfylgni tveggja stjórnsýsluúttekta sem embættið lagði upphaflega fram árið 2021. Umræddar skýrslur tóku til reksturs og starfsemi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að falli Wow Air hf. 

Komið hefur verið til móts við allar tíu tillögur til úrbóta sem settar voru fram í skýrslunum tveimur að öllu eða mestu leyti. Ríkisendurskoðun bendir þó á að bæði dómsmálaráðuneyti og Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þurfi að halda áfram úrbótum viðvíkjandi fjórar tillögur. Þær tillögur snúa að málsmeðferðartíma bæði fjölskyldumála og þinglýsinga, stöðu og framvindu umbóta og gæðastarfs, stefnumótun til lengri tíma og stafrænnar vegferðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Fall Wow Air hf. Aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf. (Skýrsla frá því í mars 2021)
Að mati Ríkisendurskoðunar hefur Samgöngustofa skýrt og uppfært bæði verklagsreglur og verkferla um eftirlit með fjárhag flugrekanda. Á það jafnt við um verklag þegar grunur er um fjárhagsörðugleika og þegar fjárhagsleg endurskipulagning stendur yfir. Þá er góðs viti að Samgöngustofa hefur leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til að tryggja þekkingu og getu til að leggja mat á fjárhag flugrekstraraðila. Ríkisendurskoðun brýnir þó fyrir Samgöngustofu og innviðaráðuneyti að komi til þess að reyni á eftirlit stofnunarinnar með fjárhag flugrekanda verði það tekið föstum tökum frá upphafi og að stofnunin beiti lögbundnum heimildum sínum til að tryggja að flugrekandi uppfylli fjárhagsleg skilyrði flugrekstrarleyfis. 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu (Skýrsla frá því í nóvember 2021)
Af þeim sjö úrbótatillögum sem Ríkisendurskoðun kynnti í skýrslunni Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu (nóvember 2021) hefur í þremur tilfellum verið unninn fullur bugur á þeim annmörkum sem bent var á. Innra eftirlit hefur verið tekið fastari tökum og nauðsynlegar úrbætur hafa verið gerðar á bæði færslu bókhalds og tilhögun geymslufjárreikninga. Í eftirstandandi fjórum tilvikum hafa bæði sýslumannsembættið sjálft og dómsmálaráðuneyti brugðist með jákvæðum hætti við tillögum Ríkisendurskoðunar og umtalsverðar úrbætur orðið á þeim veikleikum sem bent var á. Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki tilefni til að ítreka tillögurnar en brýnt að bæði ráðuneyti og Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram á sömu braut. 

Skýrsla

Tillaga til úrbóta

Ábyrgðaraðili

Fall Wow Air hf. Aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf.

Verklag vegna fjárhagsörðugleika flugrekenda 

Samgöngustofa og innviðaráðuneyti 

Verklag vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar flugrekenda 

Sérfræðiþekking og geta þarf að vera tryggð 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Málsmeðferð og stjórnsýsla 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneyti 

Umbóta og gæðastarf 

Innra eftirlit 

Nettun tekna og launagjalda 

Geymslufjárreikningar 

Stefnumótun til framtíðar 

Stafræn þróun 

 

Mynd með frétt